31. júlí 2019
Flottur og viðburðarríkur dagur að baki í dag. Við borðuðum morgunmat, hylltum fánann og sungum úti, þvínæst í Zumba við eitt lag á stéttinni við Ölversskálann. Að því loknu var tiltekt í herbergjum og síðan biblíulestur og söngstund. Við sungum lag við versið, Vertu nú yfir og allt um kring, lagið um Myndina hennar Lísu og lærðum eitt gospellag, Praise him. Stelpurnar voru duglegar að leita í Nýja testamentinu að ritningarversum, leituðum að fjórum versum og fundum í lokin faðir vorið og lásu allir það saman. Dregið var í vinarleik en einnig gerðum við það í gær og mikil leynd og spenna ríkir nú hver ætli sé leynivinur hvers. Stelpurnar hafa ýmist verið að gefa og gera vinarbönd fyrir leynivininn, fallegan stein, fallega teiknaða mynd eða skrifað eitthvað fallegt á blað til vinarins.
Eftir bíblíulesturinn var farið út að leika, bæði í skipulagða leiki og einnig frjálsan leik. Í hádegismat voru fiskibollur og við höfðum orð á því hér hvað allir voru duglegir að borða. Eftir matinn var borin sólarvörn á alla og við fórum í stuttan göngutúr niður að á sem er hér ekki svo langt í burtu. Buslað og vaðað var í ánni og ráðskonan, Hrafnhildur kom með gómsætar brauðbollur og súkkulaðikökur í drekkutímanum sem Jóhanna bakari hafði bakað fyrir okkur um morguninn. Drekkutímann höfðum við niður við ána í góða veðrinu.
Eftir þetta löbbuðum við heim, stelpurnar tóku þátt í að búa til kókóskúlur og allir fóru í pottinn eða sturtu og eftir það í sparifötin sín. Þarnæst hófst veislukvöld og í boði voru mjög góðar pizzur sem stelpurnar borðuðu eins mikið af og þær gátu. Í eftirrétt voru kókóskúlurnar fínu. Að loknum kvöldmat hófst kvöldvakan, við grilluðum sykurpúða þar á eftir og sungum nokkur lög við gítar og fiðluundirleik. Epla- og appelsínubitar og vatn í kvöldkaffinu.
Góða nótt og ég sendi ykkur góðar kveðjur héðan úr Ölveri og allar stelpurnar stóðu sig ofsalega vel í allan heila dag.
Kveðja, Rósa forstöðukona Krílaflokks.