Já það er sko búið að vera nóg að gera fyrsta daginn hjá þessum frábæra hópi sem kom upp í Ölver í dag! Við byrjuðum á því að bjóða stelpurnar velkomnar og fórum yfir nokkrar mikilvægar reglur. Við röðuðum svo í herbergi og auðvitað fengu allar vinkonur að vera saman. Herbergin eru sex talsins. Þær komu sér fyrir og borðuðu svo skyr með brauði í hádegismat. Þær fengu smá frjálsan tíma áður en farið var í göngu um svæðið. Gangan endaði á íþróttavellinum þar sem við fórum í marga skemmtilega leiki. Veðrið er búið að vera æðislegt og því borðuðum við kaffi úti, en þær fengu nýbakað bananabrauð með smjöri og osti ásamt dýrindis köku með bláu smjörkremi. Svo var smá frjáls tími þangað til allar stelpurnar voru kallaðar inní matsal. Það var komið að bænakonuleit! Hvert herbergi fær einn foringja, eða bænakonu, sem kemur til þeirra á kvöldin, segir sögur og biður með þeim kvöldbæn áður en þær fara að sofa. Þær þurftu að fara út að leita að bænakonunum sem höfðu klætt sig upp í búninga og földu sig einhversstaðar á svæðinu. Þegar allir höfðu fundið sína bænakonu var farið í íþróttahúsið þar sem við lærðum reglurnar í brennó. Að því loknu var kvöldmatur sem voru grænmetisbuff með kúskúsi, kaldri sósu og fersku salati. Stelpurnar hoppuðu á hoppukastala eftir matinn, enda var ennþá frábært veður úti. Klukkan 20:00 var kvöldvaka. Þar var sungið af krafti, horft á foringja leika leikrit og hlustað á sögu sem Erla forstöðukona sagði. Þær fengu ávexti í kvöldhressingu áður en bænakonurnar komu inn til þeirra um klukkan 21:30. Þegar þessi frétt er skrifuð eru foringjarnir að svæfa stelpurnar, en búist er við að ró verði komin á um klukkan 22:30.
Þetta er mjög hress og skemmtilegur hópur. Dagurinn í dag var æðislegur og við hlökkum til að kynnast stelpunum enn betur og njóta næstu daga saman. Myndir frá deginum í dag koma á netið í fyrramálið.
Kær Kveðja,
Jóhanna Elísa Skúladóttir