Í dag var sannkallaður föndurdagur! Stelpurnar fengu að sofa örlítið lengur í dag vegna náttfatapartý gærkvöldsins. Þær vöknuðu klukkan 09:00 og var morguninn hefðbundinn. Við vöknuðum allar við litla gesti í gluggunum, lúsmýið var mætt, og eru allflestir hér á bæ með einhver bit, þó ekkert alvarlegt. Í hádegismat var kjúklingaréttur með hrísgrjónum og osti ásamt salati. Eftir hádegi var leirgerð! Allar stelpur fengu leir og bjuggu til eitthvað fallegt. Hann þarf að þorna í nótt og svo getum við málað hann á morgun. Í kaffitímanum var bananakaka með súkkulaði og pizzasnúðar. Eftir kaffi var komið að því að skola litinn úr bolunum okkar, og mikið hrikalega koma þeir vel út! Sjá myndina sem kom með fréttinni. Við gerðum einnig brjóstsykur. Eitt og eitt herbergi kom í einu inn í matsal og fékk að gera tvær bragðtegundir af brjóstsykri. Í boði voru marsskonar tegundir, peru, jarðarberja, tutti frutti, hindberja, lakkrís og kóla. Þær settu brjóstsykurinn í poka og við geymdum fyrir þær. Í kvöldmatinn var síðan pastasalat með hvítri sósu og hvítlauksbrauð úr ofni. Svo var komið að kvöldvöku þar sem síðustu tvö herbergin fengu að sýna leikrit. Í lok kvöldvökunnar var síðan aftur smá óvænt, en í þetta skiptið fengu þær að horfa á mynd. Mulan 1 varð fyrir valinu og þær fengu ávexti og brjóstsykurinn sem þær bjuggu til. Mjög athafnasamur og skemmtilegur dagur að baki. 

Myndir hér, og nýjar í fyrramálið: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157714789200651

 

Kær kveðja, 

Jóhanna Elísa Skúladóttir