Ölver 5. flokkur 1. júlí

Jæja, hvar á að byrja? Hingað í Ölver eru komnar 46 frábærar stelpur. Það kom fljótt í ljós að margar þeirra eru þaulvanar Ölversstelpur sem stefna á að starfa í Ölveri þegar þær hafa aldur til. En svo eru líka nýjar Ölversstelpur sem smellpassa í hópinn og líta út fyrir að hafa komið hingað oft áður.

Við ákváðum að nýta fyrsta daginn í að kynnast staðnum og hver annarri. Stelpurnar skelltu sér í göngu um svæðið og fóru í samhristings- og nafnaleiki. Eftir kaffi þurftu þær að leysa verkefni til að finna bænakonuna sína en hvert herbergi á sína bænakonu sem er starfsmaður sem passar sérstaklega upp á stelpurnar í sínu herbergi og svæfir þær á hverju kvöldi.

Eftir kvöldmat hópuðust stelpurnar upp í sal á fyrstu kvöldvökuna. Stelpurnar í Hamraveri og Hlíðarveri sáum um að skemmta hópnum með leikritum og leikjum.

Það gekk nokkuð vel að svæfa stelpurnar þó sumar hafi þurft aðeins lengri tíma til að sofna. En allar sváfu vel þrátt fyrir að lúsmýið hafi nartað í nokkrar þeirra.

Eftir hefðbundinn morgun; morgunmaturm fánahylling og tiltekt var fyrsti biblíulesturinn. Stelpurnar unnu saman verkefni þar sem þær þurftu að byggja turn úr spagettíi og lærðu hvað það er mikilvægt að byggja líf sitt á traustum grunni.

Brennókeppni flokksins er nú formlega hafin og fyrstu leikir í gangi í þessum skrifuðu orðum.

Við stefnum svo á frábæran dag enda leikur veðrið við okkur hér í Ölveri. Myndir frá fyrsta degi eru komnar inn á myndasíðu Ölvers.

 

Hádegismatur: Skyr og pizzubrauð

Kaffitími: Bananabrauð og jógúrtkaka

Kvöldmatur: Steiktur fiskur, kartöflur og salat

Morgunmatur: Hafragrautur, Cheerios, Cornflakes og súrmjólk

 

Sólarkveðjur úr Ölveri

Hjördís Rós – forstöðukona