Þá höldum við áfram þar sem frá var horfið í gær.

Sólin lék við okkur í gær og eftir hádegismat gengum við niður að læk þar sem stelpurnar fengu að busla og leika sér. Eftir kaffitímann, sem að þessu sinni var borðaður úti, skelltu stelpurnar sér í heita pottinn og hoppuðu á hoppudýnunni sem blásin var upp í góða veðrinu.

Eftir kvöldmat lá leiðin á kvöldvöku en stuttu eftir að hún hófst var hún stöðvuð og NÆTURLEIKURINN tók öll völd. Við enduðum svo leikinn á að grilla sykurpúða úti. Lúsmýið hefur greinilega móðgast eitthvað við færslu gærdagsins (þegar ég talaði um að þær hefðu nartað í nokkrar) og komu af fullum krafti og til að minna á sig. Það voru því þónokkur bit sem bættust í hópinn síðustu nótt. Stelpurnar bera sig þó allar ótrúlega vel þrátt fyrir mörg bit og mikinn kláða. Við stefnum á að telja öll bit flokksins seinna í vikunni svo fylgist vel með :).

Eftir að bænakonurnar höfðu lesið og beðið með stelpunum söng starfsfólkið stelpurnar í svefn.

Stelpurnar sváfu vel í nótt og eftir hefðbunin morgunverk fóru þær á biblíulestur þar sem við spjölluðum saman um bænina. Stelpurnar stukku svo út í brennó og eru nú á leið inn í hádegismat.

Veðrið er dásamlegt hjá okkur svo við munum nýta daginn vel hér í Ölveri. Hér getið þið skoðað myndir frá gærdeginum.

 

Hádegismatur: Grænmetisbuff, kúskús og sósa

Kaffitími: JóJó snúðar og súkkulaðikaka

Kvöldmatur: Grjónagrautur og brauð

Morgunmatur: Hafragrautur, Cheerios, Kornflex og súrmjólk.

 

Ölverskveðja,

Hjördís Rós – forstöðukona