Í gær fengum við annan sólardag. Veðrið lék við okkur og eftir frábæran hádegismat hófust Ölversleikarnir þar sem stelpurnar kepptu í alls konar undarlegum greinum á borð við rúsínuspýt, broskeppni og stígvélasparki.

Kaffitíminn var aftur úti þar sem veðrið var svo gott. Eftir kaffi skiptum við hópnum í tvennt og annar helmingurinn fór að læra dans hjá aðstoðarforingjunum sem eru danssnillingar og hinn helmingurinn bjó til brjóstsykur.

Eftir kvöldmat var komið að kvöldvöku þar sem stelpurnar í Fjallaveri og Lindarveri létu ljós sitt skína með leikritum og leikjum. Þegar stelpurnar héldu að kvöldvakan væri að fara að klárast byrjaði NÁTTFATAPARTÝ!!! Stelpurnar dönsuðu mikið og skemmtu sér vel. Þegar náttfatapartýið var að klárast komu til okkar gestir úr sveitinni (foringjar í búningum) sem buðu stelpunum svo niður í matsal en þá var búið að breyta matsalnum í kaffihús. Eftir ljúffengar vöfflur fóru stelpurnar loksins í rúmið enda dagskráin búin að vera frekar þétt þennan ævintýraríkan dag.

Við ákváðum að sofa aðeins lengur í morgun og það veitti ekkert af því. Eftir morgunmat, fánahyllingu og tiltekt fóru stelpurnar á biblíulestur þar sem við ræddum saman um fyrirgefningu og hvernig við viljum að aðrir komi fram við okkur og hvernig við eigum að koma fram við aðra. Brennókeppnin var á sínum stað og nú eru allar stelpurnar að gæða sér á hádegismatnum.

Af lúsmýs-málum er þetta helst að frétta, að flugurnar eru enn til staðar og duglegar að bíta. Stelpurnar eru algjörar hetjur og láta bitin ekki stoppa sig í að taka þátt í ævintýrum flokksins.

 

Hádegismatur: Hakk og spagettí

Kaffitími: Súkkulaðibitakaka og heimabakað brauð

Kvöldmatur: Ávaxtasúrmjólk og brauð

Kvöldkaffi: Vöfflur með sultu og rjóma

Morgunmatur: Hafragrautur, Cheerios, Korflex og súrmjólk

 

Ölverskveðja,

Hjördís Rós – forstöðukona