Þá er komið að því, síðasti dagurinn. Það er svo sannarlega búið að vera yndislegt að kynnast þessum frábæru stelpum sem hér hafa verið dvalið síðustu vikuna. Í gær var veisludagur og eftir að við fengum okkur hádegismat breyttist matsalurinn í sýningarsal og við tók Ölvers Top Model. Stelpurnar fengu nokkra hluti sem þær gátu notað til að búa til kjól/búning og það er óhætt að segja að ímyndunaraflið hafi fengið lausan tauminn.

Eftir kaffi fóru stelpurnar í pottinn eða sturtu, klæddu sig í sparifötin og foringjarnir sáu um að greiða á þeim hárið. Veltibíllinn kom óvænt í heimsókn og allar stelpurnar fengu að snúast í nokkra hringi í honum. Veltibíllinn kennir okkur hversu mikilvægt það er að spenna beltin.

Stelpurnar fengu Ölverspizzur í kvöldmatinn og ís í eftirrétt. Þá lá leiðin upp í kvöldvökusal og foringjar flokksins sáu um að skemmta stelpunum með hverju leikritinu á fætur öðru. Kvöldvakan var í lengri kantinum en þrátt fyrir það voru þær ekki alveg tilbúnar að fara að sofa enda áttuðu þær sig á því að þetta væri síðasta nóttin. Við værum sko alveg til í að vera hér í nokkra daga í viðbót 🙂

Bænakonurnar enduðu svo kvöldið með sínum stelpum og allar sváfu þær vært í nótt.

Eftir hefðbundin morgunverk pökkuðu stelpurnar saman dótinu sínu, fóru á biblíulestur og svo út í foringjabrennó. Þar keppti sigurliðið í brennókeppninni við foringjana. Allar stelpurnar fengu svo líka að keppa við foringjana. Núna eru stelpurnar að gæða sér á grilluðum pylsum og svo endum við flokkinn á lokastund áður en við hoppum upp í rútu.

ÁÆTLUÐ HEIMKOMA ER KL.16:00 Á HOLTAVEGI 28 Í DAG!

Mig langar fyrir hönd alls starfsfólksins að fá að þakka ykkur kærlega fyrir lánið á yndislegu börnunum ykkar. Það eru algjör forréttindi fyrir okkur að fá að starfa við það að leika við þau og passa upp á þau. Við vonumst svo sannarlega til þess að sjá þær sem flestar aftur á næsta ári!! 🙂

Hér er að finna allar myndir úr flokknum.

 

Ölverskveðja,

Hjördis Rós – forstöðukona