Stelpurnar vöknuðu hressar og kátar í morgun og hófst dagurinn á morgunverði, þar sem boðið var upp á morgunkorn, súrmjólk og hafragraut. Þá var fáninn hylltur en það er rótgróin hefð hér í Ölveri. Eftir fánahyllingu tóku stelpurnar til í herbergjunum sínum enda hegðunar-og snyrtimennskukeppnin í fullum gangi.
Á fyrstu morgunstundinni fengu stelpunar að heyra söguna um systurnar Mörtu og Maríu og lærðu mikilvægi þess að gefa sér tíma til að kyrra hugann og hlusta á hjartað. Þá bjuggum við til dagbækur sem þær ætla að skrifa í upplifun sína og lærdóm vikunnar.
Þá var blásið í hádegismat og fengu þær dýrindis kjúklingaleggi, kartöflubáta og cocktailsósu.
Eftir mat var haldið niður að Hafnará þar sem þær fengu að busla og baða sig en einnig völdu þær sér allar stein til að fara með heim í Ölver og ætlum við að mála á hann á morgun. Í kaffitímanum var nýbakað bananbrauð og jógúrtkaka á boðstólnum sem þær borðuðu með bestu lyst.
Eftir kaffitímann hófst brennókeppnin og svo fóru flestar stelpurnar í heita pottinn og tvö herbergi æfðu leikrit fyrir kvöldið.
Í kvöldmat var mexíkósúpa elduð frá grunni með snakki, osti og sýrðum rjóma, svakalega góð. Þegar allir voru orðnir saddir var blásið í kvöldvöku. Þar var sungið, farið í leiki og sýnd leikrit en síðan heyrðu þær söguna um Vimmana, en sú saga kennir okkur að bera okkur ekki saman við aðra og að dæma ekki aðra.
Haldið var næst í kvöldkaffi og síðan áttu þær gæðastund hver með sinni bænakonu inná herbergi.
Nú er komin ró í húsið, allir þreyttir og sælir eftir viðburðaríkan dag.
Erla Björg Káradóttir forstöðukona