Stelpurnar vöknuðu um kl. 9:30 morgun. Morguninn var til að byrja með frekar hefðbundinn, við byrjuðum á morgunmat, fánahyllingu og tiltekt en þegar kom að morgunstund fóru hlutirnir að ruglast eitthvað aðeins. Í fyrsta lagi var morgunstundin haldinn í matsalnum en ekki í samverusalnum á efri hæðinni, í öðru lagi var forstöðukonan alein með hópinn, þetta var eitthvað skrítið…. Eftir stutta sögustund óð lafmóður starfsmaður inn í matsalinn, í mjög áhugaverðum búning. Það var komið að ÆVINTÝRALEIK FLOKKSINS! Stelpurnar voru ótrúlega spenntar og fljótar að bregðast við. Þær fengu fyrsta verkefnið inni í sal en um leið og þær náðu að leysa það fengu þær næsta verkefni. Leikurinn reynir á samvinnu og útsjónasemi hópsins. Til að „vinna“ leikinn þurfa þær að hjálpast að og vinna saman. Það tók þær smá tíma að átta sig á því hve mikilvæg samvinna getur verið og hve mikilvægt það er að hlusta vel á fyrirmæli. Um leið og þær fóru að vinna saman voru þær enga stund að klára leikinn.
Eftir hádegismat var farið í svakalega flotta nammi-spurningarkeppni sem reyndi bæði á samvinnu og almenna þekkingu stelpnanna. Það leyndi sér ekki að hópurinn er stútfullur af flottum og klárum stelpum og það má finna keppnisskap í hópnum líka.
Eftir kaffitímann fóru allar stelpurnar í pottinn og/eða sturtu og starfsmennirnir fléttuðu og greiddu þeim sem vildu. Stelpurnar klæddu sig í sparifötin og græjuðu sig fyrir veislukvöldið. Þegar allir voru klárir var matsalurinn opnaður og tók á móti stelpunum í veisluskrúða. Stelpurnar borðuðu mjög vel í kvöldmatnum (ráðskonunni til mikillar gleði) og starfsfólkið náði upp flottri stemningu í matnum.
Eftir kvöldmat var komið að veilsukvöldvöku þar sem starfsmannahópurinn sá um að sýna leikrit og skemmta hópnum. Ótrúlegt en satt náði starfsfólkið að gleðja stelpurnar og fá þær til að skella aðeins uppúr, þó nokkur leikrit og mikið um almenn kjánalæti.
Eftir viðburðaríkan dag fóru stelpurnar kátar og brosandi að sofa.
Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona
Morgunmatur: Ævintýralegt morgunverðarhlaðborð
Hádegismatur: Salatbar með öllu tilheyrandi
Kaffi: Brauðbollur, kryddbrauð og sætabrauðshringi
Kvöldmatur: Pizzahlaðborð
Kvöldkaffi: Rice krispies og ávextir