Veisludagurinn var heldur betur skemmtilegur. Stelpurnar fengu að sofa pínu lengur en daginn áður til að jafna sig eftir náttfatapartýið og svo hófst bara hefðbundin morgundagskrá, þ.e. morgunmatur, fánahylling, tiltekt, morgunstund og brennókeppni. Á morgunstundinni fengu stelpurnar að heyra söguna um týnda sauðinn og hvernig enginn er mikilvægari en annar í augum Guðs.
Eftir hádegismat söfnuðust stelpurnar saman inni í matsal og á meðan breyttist Ölver í ævintýraskóg. Hvert herbergi fór í fylgd með foringja í gegnum ævintýraskóginn og fékk að hitta ýmsar furðuverur og leysa þrautir. Þær hittu t.d. sjóræningja í einu herberginu sem hafði ekki tekið til hjá sér og bað þær um að aðstoða sig við að leita að gulli. Í næsta herbergi hittu þær ljónaveiðara sem tók þær með sér á stuttar ljónaveiðar. Svo var það hún Þyrnirós sem lá sofandi inni í herbergi og beið eftir að vera vakin með söng, trúðurinn sem kunni engin trúðabrögð og loks Gullbrá sem bauð upp á hafragraut í þremur útgáfum, of saltan, of sætan og einmitt passlegan.
Eftir ævintýragöngu og kaffi voru allir sendir í pottinn og svo spariföt og þeir sem vildu fengu fléttur frá vel fléttandi foringjum. Svo var kallað í veisluna! Veislan hófst með pítsuveislu og svo tók við sannkölluð veislukvöldvaka þar sem foringjarnir göldruðu fram hvern leiksigurinn á fætur öðrum við góðar undirtektir áhorfenda.
Það voru glaðar og sælar stelpur sem lögðust á koddana sína í gær. Eftir að bænakonurnar voru komnar út úr herbergjunum settumst við starfsfólkið á ganginn í smá stund og sungum þær í svefn. Það var ljúf og notaleg stund fyrir alla og þegar söngnum var lokið voru langflestar steinsofnaðar.
Í dag er það svo pökkun, morgunstund, úrslitaleikurinn í brennókeppninni og svo aðalmálið – foringjabrennó! Þá keppa foringjar við allar stelpurnar – og svo við sigurliðið. Eftir hádegismatinn, sem að þessu sinni verða pylsur, er svo lokastundin. Þá verða afhent verðlaun og viðurkenningar, Ölverslögin fest í minni og stelpurnar kvaddar eftir þessa skemmtilegu daga.
Rútan leggur af stað héðan kl. 15:00 og er því komin á Holtaveg 28 kl. 16:00.
Fyrir hönd sumarbúðanna vil ég þakka fyrir það mikla traust sem okkur er sýnt með því að fela okkur að annast þennan hóp undanfarna daga. Við tökum hlutverki okkar alvarlega og leggjum mikinn metnað í að öll börn sem dvelja í Ölveri mæti kærleika og virðingu í allri okkar framkomu og komi sterkari og kannski nokkrum númerum stærri heim eftir þessa reynslu. Ekki síst er okkur mikilvægt að þær upplifi sem satt er, að þær eru allar einstakar og dýrmætir einstaklingar nákvæmlega eins og þær eru.
Þessi staður veitir alltaf svo mikla blessun. Okkur sem hér störfum þykir hvergi betra að vera. Mínum störfum er lokið hér í bili og ég hlakka strax til að koma aftur næsta ár. Takk fyrir mig.