Dagur 2
Dagurinn byrjaði vel, sólin skein og allar stúlkur vöknuðu glaðar og kátar. Við fengum góðan morgunmat, fórum á fánahyllingu og áttum góða stund saman í salnum. Stelpurnar sungu falleg lög og hlustuðu á sögur. Eftir biblíulestur fóru stelpurnar í brennó, það var rosalega gaman. Brennóliðin heita eftir persónum úr söngleiknum um Benedikt Búálf. Árni Beinteinn, leikarinn sem leikur Benedikt Búálf kemur í heimsókn í dag og mun syngja fyrir þær lag úr sýningunni. Við fengum grjónagraut í hádegismat og fórum svo út í göngutúr. Við gengum að læknum og þar var aldeilis mikið vatnafjör. Stelpurnar tóku svo einn stein með sér tilbaka sem þær máluðu á. Við fengum kryddbrauð og karamellulengjur í kaffitímanum og síðdegis fórum við síðan aftur út. Þar voru stelpurnar að mála steina, hoppa í hoppukastala, fara í pottinn og leika sér í aparólunni. Við vorum með tónlist úti og svaka fjör. Í kvöldmatinn var mjög gott grænmetisbuff og allar borðuðu með bestu lyst. Tvö herbergi fengu svo að undirbúa atriði til að sýna á kvöldvökunni. Herbergin Fuglaver og Skógarver gerðu leikrit og voru með leik á kvöldvökunni sem var alveg rosalega skemmtilegt. Eftir kvöldvökuna höfðum við alveg svaka náttfataparty! Stelpurnar dönsuðu og sungu og foringjarnir léku leikrit. Þær fengu svo ís og hlustuðu á sögu fyrir nóttina, þetta fannst þeim mjög gaman. Stelpurnar voru fljótar að sofna eftir skemmtilegan og fjörugan dag. Dagskráin í dag er ekki síðri. Við ætlum að hafa hæfileikakeppni, brjóstsykursgerð, skrifa ljóð, teikna mynd og fá leynigest. Um kvöldið ætlum við svo að hafa ævintýraferð, en ég segi ykkur betur frá því á morgun.
Kær kveðja Íris Rós, forstöðukona