Heil og sæl.
Stúlkurnar voru vaktar klukkan 9:15 í morgun, þær fengu morgunmat og pökkuðu niður öllum farangrinum sínum. Það var svo ótrúlega mikil rigning uppi í Ölveri í morgun að allar ferðatöskurnar voru settar inn í eitt herbergjanna, í stað þess að geta farið beint út á stétt. Eftir niðurpökkun og frágang á herbergjunum var biblíulestur þar sem við sungum nokkur vel valin uppáhalds Ölverslög, heyrðum söguna um týnda soninn og sungum aðeins meira.
Eftir biblíulesturinn var foringjaleikur í brennó. Sigurliðið hjá stelpunum keppti við foringjana. Það er alltaf skemmtilegt og mikil stemmning í kringum það. Eftir þann leik spiluðu foringjarnir við allar stelpurnar. Þar sem foringjarnir voru bara 7 þá fengu þær nokkur aukalíf.
Í hádegismatinn fengu stelpurnar pylsur og af því að það var afmælisbarn líka í dag þá fengu þær ís í eftirrétt 🙂 Afmælisbarnið fékk að sjálfsögðu afmælissöng áður en þær fengu ísinn. Eftir hádegismatinn var smá danspartý uppi í sal og svo lokastundin þar sem stúlkurnar fengu viðurkenningar fyrir ýmislegt, eins og íþróttakeppnina (Furðuleika Ölvers), hegðunarkeppnina og Ölver’s next top model. Allir unnu eitthvað og fengu Ölvers-buff. Í lokin var svo Ölverslagið sungið en það er Eurovision lag Daða og Gagnamagnsins með breyttum texta. Það vekur alltaf mikla lukku. Textinn er aftan á bæklingnum sem þær fengu frá bænakonunum ef þið foreldrar viljið spreyta ykkur á honum 🙂
Mér fannst vikan ganga mjög vel og held að stelpurnar hafi allar skemmt sér vel. Það var ótrúlega gaman að vera með þessum hressu stelpum og tíminn leið ótrúlega hratt.
Takk kærlega fyrir mig 🙂 Kannski sjáumst við að ári í Ölveri 🙂
Þóra Jenny forstöðukona.