Í dag vöknuðum við klukkan níu og fengum okkur morgunmat. Morguninn var hefðbundinn: Fánahylling, tiltekt, morgunstund, brennó og föndur. Á morgunstundinni auglýstum við leynivinaleik. Allar stelpurnar drógu miða úr hatti og fengu nafn með einhverri stelpu í flokknum. Þær bjuggu síðan til umslög sem þær hengdu á hurðirnar á herbergjunum sínum. Markmiðið með leynivinaleiknum er að hvetja stelpurnar til að föndra og gera eitthvað fallegt og skemmtilegt fyrir leynivininn sinn. Stelpurnar voru ótrúlega duglegar yfir daginn að búa til vinabönd og falleg skilaboð til að setja í umslagið hjá leynivininum sínum. 

Í hádegismat voru fiskibollur með karrýsósu og hrísgrjónum. Eftir matinn sóttu stelpurnar derhúfurnar sínar og við tókum mynd af hverju herbergi fyrir sig með derhúfunum. Þessar myndir verða síðan framkallaðar á morgun. Svo gerðum við eitt sem sló rækilega í gegn en það var kökuskreytingarsýning! Hvert og eitt herbergi fékk köku sem var með hvítu kremi til að skreyta. Þær fengu margskonar liti af sykurmassa til að föndra úr og allskonar perlur og kökuskraut. Þetta var virkilega spennandi og stelpurnar nutu sín í botn. Svo kom að kaffitímanum þar sem þær fengu að gæða sér á fallegu kökunum sínum. 

Eftir kaffi var margt í gangi. Þau herbergi sem áttu eftir að gera stuttmynd gerðu það. Þrjú herbergi fóru í pottinn og svo skreyttu öll herbergin myndaramma. Þær skreyttu rammanna með glimmer hjörtum og stjönum, fallegum steinum og blómum og glimmeri. Þegar þær fara heim á sunnudaginn fá þær síðan framkölluðu myndirnar í rammanna til að taka með heim sem minningu úr Ölveri. 

Í kvöldmatinn var píta með allskonar góðu meðlæti og í kjölfarið fylgdi skemmtileg kvöldvaka. Stelpurnar sungu, horfðu á stuttmyndirnar við mikla kátínu, horfðu á foringjana gera leikrit ásamt því að hlusta á sögu. Svo fengu þær sér kvöldkaffi áður en þær fóru að hátta, bursta og pissa. Bænakonurnar eru á leið í herbergin núna til að spjalla við stelpurnar og segja þeim sögur áður en þær fara að sofa. 

Á morgun er spáð glampandi sól og við hlökkum til að fara út og gera eitthvað skemmtilegt! 

Hér er hægt að sjá myndirnar úr flokknum: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157719666001759?fbclid=IwAR1r1WaO5K8V2TsVk4NbRoEf-rM8ee3J-G7-l3Z_eIfUG0zm_xHy0_fztkM

Jóhanna Elísa