Veðrið hefur aldeilis verið að leika við okkur hér í Ölveri, en í gær fengum við aftur bongó blíðu. Við byrjuðum daginn á morgunstund þar sem sögð var saga um hirði sem átti 100 kindur, týndi einni og hætti ekki að leita af henni fyrr en hún fannst. Boðið var upp á lyklakippugerð fyrir hádegismat og hoppukastala. Eftir að hafa borðað hakk og spakk í hádeginu fóru stelpurnar í lækinn, vöðuðu og nýttu sólina vel. Í kaffitímanum var boðið upp á heimatilbúnar brauðbollur og súkkulaðiköku og fengu þær svo að leira úr trölladeigi og leika sér úti. Kvöldmaturinn var ekki af verri endanum, en þar var á boðstólnum grænmetisbuff, kúskús og salat. Kvöldvakan byrjaði með venjulegu sniði en breyttist svo í náttfatapartý sem endaði með bíókvöldi þar sem horft var á The Parent Trap. Stelpurnar fóru allar sáttar og sælar að sofa eftir viðburðaríkan dag.
Bestu kveðjur frá forstöðukonunum,
Guðlaug María og Ólöf Birna