Á veisludegi vöknuðu stelpurnar allar hressar og kátar, fengu morgunmat og fóru svo á morgunstund þar sem þær heyrðu sögu af miskunsama samverjanum. Eftir morgunstundina fengu stelpurnar að búa til brjóstsykur, mála og leika sér úti í þessari rjómablíðu sem við fengum. Í hádegismat var boðið upp á grjónagraut og nýttum við svo enn betur veðrið með því að fara í útileiki og enduðum svo á að vera með “Top Model” sýningu þar sem herbergin unnu saman að því að búa til eitthvað og sýna hinum 🙂 Eftir kaffitímann var boðið upp á að potta, föndur og enn meiri útiveru. Stelpurnar fengu líka flestar fastar fléttur í hárið og fóru í hrein og snyrtileg föt fyrir veislukvöldið okkar. Veislumaturinn var ekki af verri endanum en það voru pizzur. Á veislukvöldvökunni sýndu foringjarnir leikrit og sungum við mörg skemmtileg lög saman og enduðum við svo kvöldið á að klára bíómyndina sem við byrjuðum á í náttfatapartýinu og fengum ís kvöldkaffi. Allir sofnuðu vært og rótt eftir frábæran veisludag!
Í dag heyrðu stúlkurnar sögu á morgunstundinni um þakkarkörfu og fengu tækifæri til að skrifa niður þakkarbænir til að setja í þakkarkörfu. Þær hlustuðu vel og sungu líka fullt af skemmtilegum lögum.
Áætluð heimkoma er svo kl. 14 á Holtaveg 28.
Við viljum þakka fyrir flokkinn og hlökkum til að sjá sem flestar aftur í Ölveri á næsta ári 🙂
Bestu kveðjur frá forstöðukonum,
Guðlaug María og Ólöf Birna