Jæja, þá fer þessum yndislega flokki að ljúka. Heimfarardagur í dag og stelpurnar orðar mjög spennt að hitta ykkur.
En vilji þið kannski fá að vita hvað við gerðum í gær? Það var nefnilega geggjað dagur. Veisludagurinn sjálfur. Eftir morgunrútínuna fengum við góðan gest frá Björgunarsveitinni á Akranesi sem kom með kassaklifur til okkar. Myndir segja meira en 1000 orð, svo endilega skoða myndir dagsins. En þetta gengur ss útá það að stafla gömlum kókkössum ofaná hvorn annan og klifra upp turnin á meðan. Að sjálfsögðu í bandi og enginn slasaði sig. Bara ótrúlega skemmtilegt og öðruvísi.
“Það skemmtilegasta sem ég hef gert í Ölveri”. – Barn í flokki
“Gat ekki hætt að klifra” – Annað barn í flokki
Hamraver gefur þessu 6 stjörnur af 5 mögulegum.
Eftir þetta óvænta og skemmtilega ævintýri var kaffi og svo pottur fyrir þær sem vildu. Svo mátti hjálpa okkur að skreyta salinn fyrir veislumatinn, fara í sitt fínasta púss og fá fléttur í hárið. Pizza í matinn, og vá hvað þessi börn geta borðað af pizzu maður!
Veislukvöldvaka þar sem foringjarnir sýndu leikrit eftir leikrit og voru bara almennt fyndnar og frábærar eins og alltaf. Mikið hlegið, en svo líka allir fegnir því að fara að sofa. Já, einmitt. Eftir 7 daga ævintýraflokk er maður alveg doltið þreyttur. Þið fáið sem sagt þreeeeytt (og (mismikið) útbitin) börn til baka. En vonandi sátt og glöð (:
Nóttin var mjög róleg, og allir steinsofandi í morgun. Heimfarardagur byrjar eins og hver annar dagur; matur, biblíulestur og svo brennó. En í dag, kepptu þær á móti foringjunum í brennó. Fyrst sigurliðið í brennómótinu og svo allar stelpurnar á móti okkur. Gekk vel en þær smá tapsárar. Þið fáið örugglega að heyra allt um það hvernig við svindluðum og að Gríma hafi sko stigið á línu.
Þær eru núna að borða pulsur og ætla svo að pakka. Kl 14 er svo lokastund og kl 15 leggjum við í hann. Rennum í hlað á Holtavegi um kl 16, eða rúmlega það. Fer eftir því hversu mörg börn gleyma að pissa áður en þau fara útí rútu.
En þetta eru þá lokaorðin mín. Takk kærlega fyrir að treysta okkur fyrir börnunum ykkur. Það var ótrúlega gaman að kynnast þeim. Þær eru frábærar og einstakar. Ég vona innilega að ég fái að hitta þær aftur hér í Ölveri á næsta ári. Þær segjast amk allar ætla að koma, og eru margar spenntar fyrir því að verða 15 ára, því “þá mega þær sko vera aðstoðarforingjar og vera vakandi á nóttunni og borða nammi”… sem er satt 😉
Sjáumst á Holtavegi á eftir 😀
Over and out
Gríma Katrín Ólafsdóttir
Forstöðukona