Skemmtilegur dagur er kominn að kvöldi.
Troðfull dagskrá sem byrjaði á Bíblíu lestri þar sem þær lærðu að fletta upp í testamentinu sínu og bjuggu til bókamerki með ákveðnu versi sem þær fengu að velja.
Þær fengu að spila brennibolta í fyrsta skipti og var þeim öllum skipt upp í lið og heita öll eftir illum karakterum, eða: Trölli, Voldemort, Kjartan, Mínerva, Skari og Grimmhildur gráman.
Eftir góðan hádegismat var hæfileikasýning Ölvers þar sem margar stigu á stokk og sýndu okkur allskonar hæfileika. Mikið dansað, sungið, leikið leikrit og annað.
Í kaffinu fengu þær nýbakað bananabrauð og smákökur sem rann ljúft niður með djúsi.
Svo var komið að nýjum ‘gömlum’ dagskrálið! Þetta var svokallaður tuskuleikur en hann virkar svoleiðis að stelpurnar verða að safna mismunandi strikum á hendina sem foringjarnir teikna á þær eftir að þær ná að ljúka við einfaldri þraut en þær þurftu að passa sig því aðrir foringjar voru í felum með blautar tuskur og gátu strokað þær út ef þær náðu stelpunum!
Þessi leikur heppnaðist einstaklega vel og fannst stelpunum hann sjúklega skemmtilegur!
Þær komu sveittar og þreyttar inn og fengu þær sem vildu fara í sturtu og skola sig vel.
Eftir kvöldmat var komið að kvöldvöku sem var stútfull af söng og leikritum frá tveimur herbergjum þá enduðum við kvöldið á kósý kvöldi, kveiktum á mynd og þær fengu eins mikið popp og þær gátu í sig látið!
Kvöldið endaði með söng frá foringjunum fram á gangi <3
Bestu kveðjur úr Ölveri,
Fanney forstöðukona