Stelpurnar vöknuðu hressar og kátar kl. 09:00 í morgun og sváfu nokkuð vel þrátt fyrir mikla spennu, nýtt umhverfi og vera svona margar saman í herbergi.
Morguninn var með hefðbundnu sniði. Byrjuðum á að fá okkur smá næringu, fórum svo út í fánahyllingu, tókum vel til í herbergjunum okkar (hegðunarkeppnin formlega hafin) og fórum svo á morgunstund. Í lok morgunstundarinnar voru brennóliðin kynnt og brennókeppni flokksins formlega sett. Hópurinn fór þá rakleiðis út í íþróttahús með keppnisskapið og hvatningarópin að vopni.
Eftir hádegismat var ákveðið að njóta aðeins í sólinni, við erum örlítið hræddar um að við sjáum ekki mikið af henni það sem eftir er af vikunni, og því farið í göngu niður að á. Þar fengu stelpurnar að vaða og leika sér ásamt því að skreyta steina og fleira skemmtilegt.
Eftir kaffitímann, sem var að sjálfsögðu tekinn úti í sólinni, var ákveðið að hafa rólega stund. Starfsfólkið kallaði eitt herbergi í einu inn í matsal þar sem stelpurnar fengu að búa til sinn eigin brjóstsykur. Hver hópur valdi sinn lit og sitt bragð og svo gerði hver og ein sinn brjóstsykurspoka. Þetta vakti mikla lukku og gekk vonum framar. Eftir að hafa sett sína mola í poka fóru stelpurnar rakleiðis í pottinn og/eða í sturtu.
Á kvöldvökunni sáu tvö herbergi um að skemmta hópnum og fengum við að sjá dansatriði, leikrit og leiki. Þegar það fór að styttast í annan endann á kvöldvökunni kom ráðskonan inn með tilkynningu… það leit út fyrir að það væri að byrja leikur… jú viti menn það var komið að TUSKULEIKNUM! Tuskuleikurinn gengur út á það að stelpurnar hlaupa um útisvæðið, leysa þrautir og fá „túss-línu“ á framhandlegginn fyrir hverja þraut sem þær ná að leysa. Hins vegar eru á ferðinni hlauparar vopnaðir blautum tuskum og ef þeir ná stelpunum geta þeir þurrkað af þeim eina línu. Sú ölversstelpa sem stendur uppi með flestar tússlínur þegar leikurinn er flautaður af stendur uppi sem sigurvegari.
Á meðan stelpurnar voru úti að leysa þrautir og safna stigum var starfsfólkið á meðan að stilla upp matsalnum fyrir næsta dagskrárlið – ÍSBAR! Starfsfólkið kom stelpunum heldur betur á óvart þegar þær settu upp ÍS-BAR með öllu tilheyrandi í kvöldkaffinu, ísinn vakti mjög mikla lukku. Á meðan stelpurnar fengu sér ís hlustuðu þær á sögu um hvernig orð geta sært og hvernig hegðun okkar getur haft afleiðingar.
Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona
Morgunverður: Hlaðborð
Hádegismatur: Grjónagrautur
Kaffi: Ölvers-brauðbollur, kókoskúlur og rice krispies
Kvöldmatur: Pizza
Kvöldkaffi: Ís-bar og ávextir