Stelpurnar vöknuðu í morgun um kl. 9:30 og áttu hefðbundinn og rólegan morgun.
Eftir hádegismat var blásið til ÖLVERSLEIKA! Stelpunum var þá skipt upp í lið eftir herbergjum og hvert herbergi einkennt með lituðu Ölvers-vesti. Þær áttu svo að fara niður á fótboltavöll og leysa hinar ýmsu þrautir sem hópur. Þrautirnar voru margar hverjar virkilega furðulegar og var meðal annars keppt í furðuveru og könglulóáannarri-boðhlaupi svo eitthvað sé nefnt.
Eftir kaffitímann horfðum við saman á landsleikinn ásamt því að hægt var að fara í pottinn og sturtu.
Á kvöldvökunni sá eitt herbergi um að skemmta hópnum og var með einn leik og eitt leikrit. Í kjölfarið kom svo stjórn KSS og var með kynningu á starfi sínu fyrir stelpurnar. Þegar þau höfðu tekið gott spjall við stelpurnar fengu stelpurnar þau til að sýna okkur eitt leikrit. Þegar það átti að fara að slíta kvöldvökunni og segja þetta gott óð inn í kvöldvökusalinn kona og tók stjórnina af starfsmannahópnum… hvað var eiginlega um að vera, hver var þetta og hvað í ósköpunum var hún að gera?? Það var komið að því … ÆVINTÝRALEIKUR FLOKKSINS! Stelpurnar voru ótrúlega spenntar og fljótar að bregðast við. Þær fengu fyrsta verkefnið inni í sal en um leið og þær náðu að leysa það fengu þær næsta verkefni. Leikurinn byggðist á þáttunum Stranger Things og reyndi á samvinnu og útsjónarsemi hópsins. Til að „vinna“ leikinn þurfa þær að hjálpast að og vinna saman. Það tók þær smá tíma að átta sig á því hve mikilvæg samvinna getur verið og hve mikilvægt það er að hlusta vel á fyrirmæli. Um leið og þær fóru að vinna saman voru þær enga stund að klára leikinn.
Þegar stelpurnar höfðu náð að leysa úr leiknum og koma hópnum öllum í höfn var þeim safnað saman í matsalnum. Búið var að breyta matsalnum í kaffihús sem bauð upp á vöfflur með öllu tilheyrandi en það hitti aldeilis í mark hjá okkar konum enda þreyttar eftir alla útiveruna og hlaupin.
Eftir að hafa hlustað á stutta hugleiðingu fóru allir að græja sig í háttinn … það var þó ekki öll dagskrá búin … allt í einu byrjaði að óma danstónlist úr kvöldvökusalnum … gat það virkilega verið? Annað náttfatapartý? Já, heldur betur! ooog stemninginn svona gríðarleg … Í þetta skiptið stóð það þó bara yfir í nokkur lög en við starfsfólkið höfum sjaldan séð aðra eins stemningu!
Það komst afar fljótt ró í húsið eftir daginn og stelpurnar voru fljótar að sofna.
Bestu kveðjur
Alla Rún, forstöðukona
Morgunverður: Hlaðborð
Hádegismatur: Skólastjórasúpa ásamt tortilla með salsa og osti
Kaffi: Kremkaka og lummur
Kvöldmatur: Pastasalat með öllu tilheyrandi
Kvöldkaffi: Vöffluhlaðborð