Þá er síðasti heili dagurinn okkar runninn upp og að sjálfsögðu spennandi dagur framundan. Morgunmaturinn var dýrð og dásemd að vanda og svo fánahylling í léttskýjuðu veðri, tiltekt og morgunstund á sal. Stelpurnar njóta þess að syngja, biðja saman og í dag lásum við bókina „Ég er frábær“ sem minnir okkur á við getum valið hversu mikið við látum álit annarra hafa áhrif okkur og við getum alltaf fundið hið sanna – að við erum frábær og elskuð eins og við erum – með því að eiga samtal við Guð og finna hans einlæga kærleika til okkar.
Brennó keppnin var æsispennandi og kappsemin mikil. Í hádegismat bauð eldhúsið upp á ávaxtajógúrt og smurð brauð, sem fékk góðar viðtökur.
Eftir frjálsan tíma í sól og blíðu voru stelpurnar kallaðar upp á sal þar sem Dumbledore, skólastjóri Hogwartsskóla, tók á móti þeim. Hann tilkynnti nemendunum þær skelfilegu fréttir að Sá sem ekki má nefna væri snúinn aftur, vitsugurnar væru um allt og nú lægi á að finna Ron Weasly til að fá vísbendingu til að finna Hermione, sem gæfi vísbendingu til að finna Harry, sem gæfi vísbendingu til að finna Dumbledore – og þá væri leikurinn unninn. En á meðan leitinni stæði var hætta á ferð, því vitsugurnar voru á sveimi og ef þær næðu að klukka stelpurnar yrðu þær sendar beinustu leið til Azkaban. Hjálpsamir samnemendur gætu þó bjargað þeim þaðan með hárri fimmu – en ef Sá sem má ekki nefna næði að klukka þær þá væru þær úr og engin björg í boði…
Stelpurnar fóru strax að iða í sætunum af óttablandinni eftirvæntingu og þá var hurðinni hrundið upp með látum og Sá sem má ekki nefna og vitsugurnar tróðust inn í salinn. Okkur krossbrá (mér ekki síður en þeim!), stelpurnar öskruðu hástöfum og ruku út um dyrnar í slíku óðagoti að lá við múgæsingi. Þær ruku út úr húsinu, dreifðust hratt um landið og leituðu um allt. Þær voru einstaklega hjálplegar hvor við aðra, bæði að frelsa úr Azkaban og gefa vísbendingar hvar týnda þríeykið væri. Þessi útpælda útgáfa af feluleik lagðist vel í mannskapinn og voru þær rennsveittar og sælar á eftir. Hughreistandi faðmur var að sjálfsögðu í boði fyrir þá sem höfðu hrokkið hressilega við. Við sungum svo kaffisönginn í sólskininu með lófaklappi og mjaðmadilli áður en við fórum inn að fá skúffuköku og rice crispies kökur. Það er svo mikið líf og fjör með þessum stelpum, gaman að vera til saman.
Eftir síðdegissnarl hófst undirbúningur fyrir veislukvöld – heitapottur, sturtur, fá fasta fléttur í hárgreiðslustúdíó foringjanna, klæða sig í spariföt og eiga frjálsan tíma til að njóta í náttúrunni og nærveru hvorrar annarar. Síðasti heili dagurinn er í raun uppskeruhátíðin okkar – því þegar við erum búnar að vera saman í nokkra daga hafa allir náð að kynnast vel og skapa traust, læra á staðinn og rútínuna, og fá tækifæri og hvatningu til að taka meira pláss, láta í sér heyra og víkka þægindarammann og sjóndeildarhringinn. Þannig að í dag erum við bara að njóta og fagna því að vera til – saman ❤️
Foringjarnir breyttu matsalnum í glæsilegt veitingahús með skreyttum borðum og flöggum í loftinu. Dregið var í sæti og hver diskur merktur stúlku, þ.a. stelpurnar fengu nýja sessunauta sem skapar stemningu. Í okkar fínasta pússi var boðið upp á pítsur með óskaáleggi.
Veislukvöldvakan er alltaf stór partur af Ölvers-búðum því þá sýna foringjarnir hvað í þeim býr og bjóða upp á leikhúsveislu með alls kyns smá-leikritum og bröndurum. Nýir búningar í hverju atriði, litríkir karakterar og almennur fíflagangur, bros og hlátrasköll. Svo flutti einn foringinn fallega hugleiðingu um mikilvægi þess að biðja ekki einungis fyrir sinn eigin hag, heldur líka fyrir hag og velsæld annarra, sem var viðeigandi þar sem við höfum séð yfir síðustu daga hvernig umhyggja stelpnanna hvor fyrir annari hefur vaxið og dafnað og þær sýna kærleikann svo sannarlega í verki – gagnvart sjálfum sér og öðrum. Hátíðarkvöldsnarl var svo safarík vatnsmelóna og svo fóru þær snemma inn á herbergin til þess að fá góðan tíma með herbergisfélögum og bænakonum síðasta kvöldið. Það geta verið dýrmætar stundir inná herbergjum, þar sem stelpurnar eru í smærri hópum með foringja, geta spjallað og rætt um daginn, leikið rólega leiki, beðið, hlustað á sögu eða söng.
Hátíðlegur dagur að kveldi kominn og nóttin umvefur okkur hér í Ölveri.
Kærar kveðjur,
Áróra