Heil og sæl.
Þá er veisludagur að kvöldi kominn. Dagurinn hefur verið ótrúlega skemmtilegur og veðrið frábært, sem gerir allt starf í sumarbúðum svo miklu auðveldara.
Þær voru vaktar klukkan 9 í morgun með skemmtilegri tónlist. Stelpurnar eru orðnar þreyttar og eru seinni í gang á morgnana, allt gengur hægar og tekur lengri tíma. Morgunmaturinn var á sínum stað, fánahyllingin og tiltekt á herbergjum. Ég man ekki hvort ég hafi sagt ykkur frá því áður en við erum með hegðunarkeppni þar sem herbergin þurfa meðal annars að vera fín, stelpurnar vera duglegar að fara að sofa (heimþrá er ekki tekin inn í keppnina) það þarf að vera gott samkomulag og almenn umgengni þarf að vera góð. Svo er hægt að vinna sér inn auka broskall með hjálpsemi við foringjana til dæmis.
Á biblíulestri horfðum við á stutta (14 mínútur) kvikmynd um sr. Friðrik Friðriksson stofnanda KFUM og KFUK, Vals, Hauka, Væringja (síðar Skátarnir) svo fátt eitt sé nefnt. Myndin er fræðandi og góð og stelpurnar fylgdust með af athygli. Brennókeppnin kláraðist svo í morgun og sigurliðið fær að keppa við foringjana á morgun. Í hádegismat var pastasalat. Eftir mat var tilkynnt að við færum í sund og að rútan myndi koma um 13:30. Það er alltaf spennandi að fara af staðnum og það voru miklar umræður um það í hvaða sundlaug skyldi halda. Það eru fjórar sundlaugar í nágrenni við okkur og við völdum að fara í sundlaugina að Hlöðum að þessu sinni. Það var ótrúlega gaman, veðrið var gott og sólin kíkti aðeins á okkur undir lokin. Við tókum bakkelsið með okkur og fengum bestu kanilsnúða í heimi, kanillengjur og djús eftir sundferðina.
Við vorum komnar til baka í Ölver rétt um klukkan 16:30. Þá var kósýtími fram að kvöldmat. Við buðum upp á bíómynd, þær sem vildu fengu fastar fléttur í hárið, það var í boði að perla, teikna og gera vinabönd. Það er líka alltaf í boði að fara út að leika. Stelpurnar fóru svo í sparifötin og voru tilbúnar í veislukvöldmatinn um klukkan 19. Pizzurnar kláruðust hér um bil upp til agna, þær borðuðu ótrúlega vel! Það var afmælisbarn í hópnum sem fékk afmælissöng og kerti á rice krispies kökunni sinni. Þær fengu svo allar rice krispies köku í eftirrétt. Við starfsfólkið borðuðum svo og skipulögðum skemmtiatriði kvöldvökunnar.
Kvöldvakan var ótrúlega skemmtileg og stelpunum finnst alltaf gaman að horfa á foringjana sína fara á kostum í misgáfulegum leikritum. Við sungum mikið á milli atriða og í lokin fengu þær að heyra stutta hugleiðingu og syngja kvöldsönginn okkar fallega. Ráðskonan okkar var búin að skera niður epli fyrir kvöldkaffið og fljótlega fóru þær inn að sofa. Klukkan var rétt að detta í miðnætti og bænakonurnar eru búnar að vera inni á herbergjunum í upp undir 30 mínútur að lesa fyrir þær og koma þeim í ró.
Ég ætla að reyna að henda inn stuttri færslu á morgun eftir vikuna en ef ég gleymi því þá vil ég bara þakka kærlega fyrir okkur og segja að þessi vika hefur verið ótrúlega skemmtileg. Hópurinn sem er hjá okkur er hress og fjörugur, saman hljóma þær eins og hinn besti kór og þær hlusta alltaf af athygli á biblíulestrum og hugleiðingum.
Góða nótt,
Þóra forstöðukona.