Stelpurnar vöknuðu allar hressar og kátar og tilbúnar í ný ævintýri. Þær byrjuðu daginn á að borða morgunmat og halda svo á morgunstund þar sem sungin voru Ölverslög og sögð sagan af Miskunsama Samverjanum. Eftir morgunstundina var haldið niður í matsal þar sem stelpurnar gerðu kókoskúlur og föndruðu fyrir leynivin sinn, en leynivinaleikur er í gangi á milli stelpnanna til að kynnast betur. Í hádeginu fengu þær hakk og spaghetti sem þær borðuð með bestu lyst. Farið var í ævintýragöngu upp að steini og var mikið fjör á meðal stelpnanna. Í kaffinu var boðið upp á heimalöguð skinkuhorn og súkkulaðibitakökur. Eftir kaffi voru búin til vinabönd úr perlum og nýttu margar tækifærið að útbúa vinaband fyrir leynivininn sinn. Í kvöldmatinn var grænmetisbuff og kúskús og var svo haldið á kvöldvöku sem breyttist óvænt í náttfatapartý með tónlist og fjöri og endaði svo á bíómyndakvöldi þar sem stelpurnar fengu kvöldkaffi.
Þær sofnuðu svo allar eftir góðan dag og erum við spenntar fyrir fleiri ævintýrum í flokknum.
Ölverskveðjur,
Guðlaug og Ólöf forstöðukonur.