Hér var vaknað snemma í morgun enda enn mikil spenna í loftinu. Morgunmatur rann ljúft niður, hafragrauturinn vinsæll. Morgundagskráin okkar á sér langa hefð, eftir morgunmat er alltaf fánahylling með fánasöngnum okkar, tiltekt inn á herbergjum þar sem keppni er á milli herbergja hverjar eru stilltastar að fara að sofa og halda herbergjunum sínum fínum. Því næst er ávallt farið á morgunstund í umsjá forstöðukonu. Í dag sagði ég þeim frá Kristrúnu Ólafsdóttur stofnanda Ölvers, sögu hennar og frumkvöðlastarfsemi. Við ræddum líka um trú, traust og þakklæti. Stelpurnar hlustuðu einstaklega vel og voru mjög áhugasamar.
Þá var haldið í þjóðaríþrótt Ölvers sem er að sjálfsögðu brennó 😉 Við höfum skipt stelpunum upp í 6 blönduð lið sem heita eftir karakterum úr Disneymyndinni Inside Out. Þannig að lið eins og rauð reiði og bleikur vandræðaleiki munu t.d keppa við hvort annað á einhverju tímabili.
Í hádegismatinn var grjónagrautur og brauð með áleggi,
Eftir matinn var haldin hæfileikakeppni þar sem stelpurnar sýndu frábær atriði hvert öðru flottara.
Þá var smá föndurstund inni vegna þess að það rignir smá á okkur hér en við látum það ekki á okkur fá með sól og gleði í hjarta. Allar bjuggu til nafnspjöld fyrir kojuna sína og skreyttu það fallega.
Eftir kaffitímann, súkkulaðiköku og ljúffenga pizzasnúða, fóru stelpurnar á svokallaða Ölversleika þar sem keppt er í alls kyns íþróttagreinum.
Í kvöldmat var hakk og spaghetti og grænmeti.
Þá var komið að kvöldvöku þar sem stelpurnar sjálfar sýndu leikrit og stjórnuðu leikjum.
En dagskráin var samt ekki búin þegar þær héldu að þær væru að fara að sofa. Það var eitt óvænt atriði eftir, náttfatapartý! Stelpurnar dönsuðu, heyrðu sögu og fengu ís, mikil gleði og fjör.
Stelpurnar sofnuðu svo vært ein af annarri eftir mjög góðan dag.
Kærar kveðjur úr Ölveri
Erla Björg Káradóttir forstöðukona