Það var vægast sagt ævintýralegur dagur í dag enda jólaþema 😃 Stelpurnar voru vaktar með hressum jólalögum og byrjuðu daginn á hefðbundnum morgunmat og fánahyllingu.
Í morgunstund voru sungin lög og lesnir kaflar úr bókinni Við Guð erum vinir. Stelpurnar eru áhugasamar og hlusta af mikilli athygli og taka þátt í umræðum.
Brennóið var á sínum stað og síðan var jólagrautur í hádegismat við mikinn fögnuð. Eftir hádegismatinn var haldið í hressandi göngutúr. Það blés á okkur en engin rigning var í dag.
Bakkelsið í kaffitímanum minnti á jólin þar sem kanill og negull voru áberandi. Eftir kaffi var ævintýragangur sem stelpurnar höfðu mikið gaman af.
Frjálsan tíma nýta Stelpurnar t.d. í að lita, teikna, föndra, gera vinabönd og leika úti.
Kvöldmaturinn var ekki af verri endanum eða kjúklingur, kartöflubátar og grænmeti.
Eftir hefðbundna kvöldvöku var komið að háttatíma…eða það héldu stelpurnar. Þegar þær voru komnar uppí var skellt í óvænt náttfatapartý við mikinn fögnuð. Jóladeginum lauk síðan á þann hátt að sjálfur jólasveinninn kom færandi hendi og gaf öllum íspinna. Það voru sannarlega sáttar og sælar stelpur sem lögðust á koddann í kvöld.
Góðar kveðjur úr Ölveri
Svava Sigríður Svavarsdóttir
Forstöðukona