Hér koma fréttir úr Ölveri. Dagur nr. 3 (31.07)
Vitiði hvað, það hvessti all verulega síðastliðna nótt, mitt síðasta verk fyrir svefninn var að festa vel glugga svo læti og hávaði í vindinum myndi ekki vekja stelpurnar. Vindurinn hélt áfram að gnauða þegar við vöknuðum og fram eftir degi, en merkilegt nokk, þetta var bara hlý gola sem fylgdi, svo veðrið var bara notalegt eftir allt saman í allan dag.
Í morgunmat bjóðum við upp á cerios, súrmjólk, kornfleks og hafragraut. Stelpurnar eru mjög duglegar að borða á morgnana, alveg frábært.
Eftir morgunmat var fánahylling og ég sagði stelpunum að í dag væri seinasti dagur Guðna forseta í embætti. Þær vissu vel hver yrði nýr forseti er ég spurði út í það, Halla Tómasdóttir.
Því næst áttu stelpurnar að taka til í herbergjunum sínum, búa um og ganga snyrtilega frá fötunum sínum…eitthvað sem þarf víst að lærast í lífinu 🙂 Að því loknu var svo samvera með mér á efri hæðinni. Þar talaði ég um vinskap við þær og að mikilvægt væri að allar væru vinkonur og hvatti þær til að reyna að kynnast sem flestum hér í flokknum. Við kynntumst hverjar væru í hvaða árgangi, en hér dvelja saman árgangarnir 2014, 2015, 2016 og 2017. Og við smelltum af einni hópmynd. Við settumst allar í hring og allar fengu að segja hvað væri uppáhaldsmaturinn. Oft komu svör eins og afakjöt og ömmusúpa og þess háttar sem var svo krúttlegt að fá fregnir um. Síðan nefndu 10 af 43 stelpum, að pizza væri þeirra uppáhaldsmatur. Í beinu framhaldi uppljóstraði ég því að allur dagurinn í dag væri nefndur “Veisludagur” og að á veislukvöldinu væri einmitt pizza í matinn. Ég kenndi þeim nýtt lag og okkur tókst að syngja lagið í keðju, eða þremur röddum, mjög flott hjá þeim og gaman að heyra.
Allar stukku þær út á fótboltavöllinn því næst, en þar fara fram brennóleikirnir okkar. Foringjarnir hér í Ölveri hafa skipt stelpunum vel í lið og liðin bera öll nöfn úr Disney-heiminum.
Í hádegismat var kalt pasta með grænmeti og skinku, ótrúlega gott sko.

Eftir hádegismat var frjáls tími, með mörgum stöðvum sem hægt var að velja um og flakka á milli. Pottafjör, Teikni-og föndurhorn, Blómaskreytingahorn, Útileikir, Kósýhorn, Andlitsmálun, Fastrafléttustöð, perlu-og vinaarmbandsstöð o.fl.
Allar stelpurnar nutu sín alveg í botn og höfðu gaman af.

Í kaffinu voru kökur og djús á boðstólnum, en allur bakstur hér í Ölveri er splunkunýr, bakað er hvern morgun sem framreitt er svo í kaffinu. Bakarinn okkar heitir Sólveig og ráðskonan, sú sem eldar góða matinn sem við fáum heitir Guðbjörg.
Eftir kaffi héldum við áfram stöðvafjörinu, allir fóru síðan í sparifötin, starfsfólkið skreytti salinn og ég lék á fiðlu þegar prúðbúnu, hreinu og velgreiddu stelpurnar gengu virðulega inn í matsalinn nýskreytta.
Pizza pizza pizza í kvöldmat.

Á kvöldvökunni voru sýnd leikrit, að þessu sinni voru leikararnir starfsfólkið okkar hér. Stelpurnar höfðu svo gaman að þessu og mikið var hlegið 🙂 Ég stýrði söngstund á meðan skipt var um búninga, og stelpurnar sungu hátt og innilega með, alveg dásamlegar.
Kl. 23.00 var komin ró í húsið og stelpurnar lögðust þreyttar á koddann eftir vellukkaðan dag.

Hér er linkur á myndir, endilega skoðið.

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720319224208/

Á morgun er brottfarardagur, við reiknum með að fara af stað í rútu kl. 14.00 til Reykjavíkur. Ef sótt verður, er best að koma á bilinu 13-14
Með kærri kveðju,
Rósa