Jæja, vegna anna forstöðukonu varð því miður aðeins dráttur á fréttaflutningi af gærdeginum. En hér koma þær loksins og vonandi voru þær biðarinnar virði.
Gærdagurinn staðfesti held ég endanlega fyrir stelpunum að í Ölveri getur bókstaflega allt gerst því í hér voru haldin jól!
Þegar stelpurnar vöknuðu kom í ljós að jólasveinninn hafði eitthvað ruglast og komið við hérna með sleikjó í skó í hverju herbergi og búið að var að skreyta allan herbergisganginn og matsalinn með seríum og skrauti. Þið getið rétt ímyndað ykkur viðbrögðin!
Eftir morgunmat, morgunstund og brennó var boðið upp á skyrbar með heimagerðu múslí og ávöxtum og allar borðuðu gríðarlega vel. Eftir hádegismatinn var svo komið að jóla-ævintýraganginum. Leikurinn byrjaði þannig að allar mættu í matsalinn í piparkökuskreytingar og svo fór hvert og eitt herbergi af stað í ævintýragang á milli herbergja. Á leiðinni leystu þær alls konar þrautir og hittu fyrir íslenska jólasveininn, Grýlu og Grinch, Maríu mey og jólaandann. Ég ætla ekki að segja ykkur of mikið af þessu svo það sé nú eitthvað eftir fyrir samtölin þegar heim er komið en það er óhætt að segja að þetta hafi verið gaman. Leikurinn endaði á stóru jólabingó í kvöldvökusalnum og á meðan var komið upp kósý kaffihúsastemmningu í matsalnum. Eftir bingóið tók því við kósý stund við kertaljós með heitu kakói, skreyttum piparkökum og eplaköku.
Eftir kaffi var komin þörf fyrir útiveru. Við fórum í feluleik. Tveir foringjar földu sig í skóginum og stelpurnar klæddu sig í útföt og leituðu að þeim í KLUKKUTÍMA. Annar foringinn fannst og hinn ekki en allir komu til baka fullir af súrefni og hreyfingu og með smá blautar tásur og þá er markmiðinu náð. Við tók svo pottur og spil hjá sumum og undirbúningur kvöldvöku hjá öðrum.
Í kvöldmatinn var auðvitað jólahlaðborð! „Besti matur sem hefur nokkurn tímann verið boðið upp á í Ölveri“ heyrðist úr mörgum hornum. Kartöflumús, jólaskinka, kjötbollur, maísbaunir og brún sósa. Getur það orðið betra? Maturinn var svo góður að það þurfti að útbúa meira af honum í miðjum matartíma en foringjarnir leystu biðina vel með sögum og skemmtun. Í Ölveri fer enginn svangur frá borðum!
Eftir kvöldmat tók svo við hefðbundin kvölddagskrá og jólastemmningin minnkaði kannski aðeins. Tvö herbergi sýndu skemmtileg atriði á kvöldvöku og Herdís, foringi, sagði stelpunum söguna Þú ert frábær eftir Max Lucado. Við ákváðum að hafa enga sérstaka ævintýradagská um kvöldið heldur taka okkur frekar góðan tíma í að spjalla á herbergjunum og eiga rólega stund eftir ærslagang síðustu daga.
Stórkostlegt starfslið hér mér til stuðnings sem tekst að gera meira að segja úrhellis-rigningardaga að einu stóru ævintýri. Er hægt að vera annað en þakklátur?
Ásta Sóllilja, forstöðukona.