Í gær voru engin jól haldin í Ölveri – en dagurinn var samt alveg frábær!
Eftir hefðbundna morgundagskrá og fiskibollur með grjónum og karrýsósu í hádeginu var dinglað í TUSKULEIK! Leikurinn virkar þannig að stelpurnar finna foringja hér og þar um svæðið hjá okkur og leysa þrautir. Nái þær að leysa þrautina fá þær á sig litastrik og þegar þær hafa fengið alla liti hafa þær unnið leikinn. Sá vandi fylgir þó að á meðan þær færa sig á milli stöðva eru foringjar í leyni í skóginum með tuskur og stroka af þeim strikin! Þá er ekki annað að gera en að fara aftur af stað að leysa sömu þrautir og fá ný strik! Þrjár stelpur af 47 kláruðu leikinn. Greinilegt að foringjarnir eru fljótir að hlaupa!
Eftir allan hamaganginn var dinglað í kaffi. Þegar bera átti kræsingarnar á borð kom þó babb í bátinn! Í ljós kom að á meðan bakarinn brá sér á salernið hafði einhver komið og stolið bæði skúffukökunni og smjörkreminu. Nú voru góð ráð dýr! – Stelpurnar fóru út í skóg að leita og fundu kökurnar hjá belju úti í skógi og smjörkremið hafði trúður hlaupið með í hina áttina. Þegar herbergin höfðu fundið sínar kökur og smjörkrem komu þær í matsalinn og skreyttu kökurnar sínar og fengu pítsasnúða að auki.
Eftir kaffi var ótrulega spennandi hæfileikakeppni sem stelpurnar höfðu haft rúman sólarhring til að undirbúa. Við fengum að sjá dans- og söngatriði, leikrit, brandara, píanóleik og skemmtilega gjörninga. Allar skemmtu sér konunglega. Ekki síst starfsfólkið.
Síðan var að sjálfsögðu boðið upp á pottakósý fyrir þær sem vildu og Lindarver og Hamraver undirbjuggu atriði kvöldvökunnar fram að kvöldmat. Í kvöldmat var boðið upp á tortillur með hakki og grænmeti.
Kvöldvakan var svo haldin með hefðbundnum hætti en í lok hennar, þegar til stóð að róa liðið niður og flytja kvöldhugleiðingu, komu foringjarnir inn með látum og allir komnir í náttföt og með tónlistina á fullu! Það var komið náttfatapartý! Kvöldið hélt áfram með dans og söng og leik og endaði svo allt á því að Edda foringi las kafla úr bókinni Við Guð erum vinir um mikilvægi þess að muna að þakka fyrir allt sem maður hefur. Á meðan var boðið upp á frostpinna og ekki veitti af því eftir allan hamaganginn.
Háttatíminn gekk vel og stelpurnar voru extra sáttar að leggjast á koddann þegar þær fengu vita að þær mættu sofa aðeins lengur en venjulega.
Enn einn skemmtilegi Ölverdagurinn er nú hafinn og fréttir af honum koma í kvöld eða í fyrramálið.