Í gær voru stelpurnar vaktar með skemmtilegri tónlist og fjöri. Þær fengu morgunmat og fóru svo út og sungu við fánahyllingu. Á biblíulestrinum var fjallað um náttúruna, og henni var líkt við bók sem skrifuð var af Guði. Þar urðu til skemmtilegar samræður og síðan sungum við saman. Stelpurnar fengu hver litla tilfinningadagbók sem við skrifum í á hverjum morgni og einbeitum okkur að því hvernig okkur líður og hefur liðið frá því síðast.

Það var fiskur og kartöflur í hádegismat og svo fórum við í góða göngu. Við gengum meðfram fjallinu og klifruðum upp að steini, þar sem þær völdu sér stein til að mála seinna í vikunni. Það var afmælisbarn í Ölveri og stelpurnar fengu þá afmælisköku í tilefni dagsins. Við sungum afmælissönginn og fengum líka kanilsnúða.

Eftir kaffi var farið í heita pottinn og mikið setið og krúttast úti í glampandi sól. Í kvöldmatinn fengum við borrito sem var mjög vinsælt. Kvöldvakan var heldur betur skemmtileg, og sáu tvö herbergi um leikrit og leiki kvöldsins. Undir róleg lok stundarinnar breyttist kvöldvakan í náttfatapartý og stelpurnar hlupu og gerðu sig til fyrir langt og strangt danskvöld. Foringjar léku leikrit og stelpurnar fengu íspinna. Kvöldið endaði vel, hvert herbergi átti góða stund með sinni bænakonu og fóru sáttar að sofa.