Þvílíkur dásemdar dagur í Ölveri í gær og að sjálfsögðu nýttum við tækifærið og nutum veðurblíðunnar á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt.
Eftir hádegismatinn var farið í gönguferð niður að læk þar sem hægt var að vaða í læknum, leika eða hreinlega liggja í sólbaði. Stelpurnar fundu meira að segja krækiber sem þær gæddu sér á.
Þegar við komum til baka í Ölver var tekið á móti okkur með kaffitíma utandyra, skúffukaka með smjörkremi og rice crispies kaka. Eftir kaffi var smá frjáls tími og síðan var komið að því að þær sem vildu gátu farið í heita pottinn eða sturtu.
Það var grjónagrautur í kvöldmatinn og hann er nú alltaf vinsæll enda borðuðu stelpurnar vel af honum og einnig var hægt að fá smurt brauð. Að sjálfsögðu var síðan horft á landsleikinn og spilað bingó á sama tíma sem var mjög skemmtilegt. Í beinu framhaldi var síðan kvöldvaka með öllu tilheyrandi og auðvitað vildum við nýta blíðuna áfram og því var farið út í eltingaleik áður en komið var að kvöld snarli. Þá var ekkert eftir en að undirbúa sig fyrir háttinn og það voru hamingjusamar en þreyttar stelpur sem lögðust á koddann og voru fljótar að sofna.
Stelpurnar vöknuðu hressar og kátar í morgun tilbúnar í nýjan dag. Eftir hefðbundin morgunverk, morgunmat, fánahyllingu og tiltekt í herbergi var komið að biblíulestri. Í dag heyrðu stelpurnar söguna um talenturnar og við ræddum saman um styrkleika og hæfileika. Í framhaldi var smá föndur þar sem þær fundu út þeirra eigin styrk- og hæfileika og settu niður á blað. Nú er dagur tvö í brennókeppninni og eftir hádegismat bíður þeirra stútfull dagskrá af ýmsum þrautum, leikjum, fræðslu og frjálsum tíma.
Mig langar að hrósa stelpunum ykkar sérstaklega fyrir hvað þær eru duglegar að fylgjast með, hlusta og meðtaka fræðslu og hugleiðingar.
Þangað til næst,
Svava Sigríður Svavarsdóttir, forstöðukona.