Gærdagurinn var frekar blautur hjá okkur í Ölveri í gær. Við náðum þó smá útiveru áður en fór að rigna því eftir hádegismat, kjötbollur og kartöflumús ásamt brúnni sósu og rabbabara sultu, voru Stöðvar sem var boðið uppá  voru útileikir í lautinni , kókoskúlugerð, perlur, föndur og just dance.

í kaffitímanum borðuðu stelpurnar kókoskúlurnar sínar og einnig var boðið uppá hið vinsæla Ölversbrauð. Eftir kaffi var síðan hæfileikakeppni sem var góður dagskráliður í framhaldi af morgunstundinni þar sem hæfileikar og styrkleikar voru viðfangsefnið. Stelpurnar buðu uppá fullt af frábærum atriðum og má segja að hér sé heill hópur af hæfileikabúntum saman kominn.

Í kvöldmat bauð ráðskonan uppá grillaða hamborgara enda látum við rigninguna ekki stoppa okkur hér í Ölveri. Með borgurunum voru franskar kartöflur, salat, gúrkur og tómatar. Stelpurnar tóku vel til matar síns og voru ánægðar með þennan mat.

Eftir kvöldmat var blásið til kvöldvöku þar sem tvö herbergi sýndu leikrit, m.a. frumsamið,  og buðu uppá leiki. Stelpurnar heyrðu dæmisöguna um týnda sauðinn sem minnir okkur á að við erum öll dýrmæt í augum Guðs. Að loknum kvöldbænum urðu stelpurnar aldeilis hissa því allt í einu komu foringjarnir inní kvöldvökusalinn syngjandi og dansandi og tilkynntu að nú væri byrjað náttfatapartý. Þessi dagskrá liður er mjög vinsæll hjá okkur og stelpurnar urðu mjög glaðar og tóku virkan þátt. Eftir náttfatapartýið var notalegt bíókvöld þar sem í boði var að sækja sængur og kósa sig með frostpinna á meðan horft var á myndina Brave.

Eins og þið getið eflaust ímyndað ykkur þá voru stelpurnar orðnar ansi þreyttar eftir annasaman dag en þar sem þetta er nú einu sinni ævintýraflokkur þá bjóðum við uppá nokkuð stífa og fjölbreytta dagskrá þar sem hver dagur er sannaralega ævintýri. Okkur þykir svo mikilvægt og gaman að gera upplifun stelpnanna sem besta og okkur virðist takast það vel til enda eru þær sælar og glaðar.

Í morgun fengu stelpurnar að sofa hálftíma lengur en vanalega sem var kærkomið. Eftir hefðbundin morgunverk var komið að biblíulestri og í dag var þakklætið okkur efst í huga. Við skoðuðum Nýja testamenntið og stelpurnar lærðu að fletta upp í því. Stelpurnar sömdu síðan eigin þakklætisbænir sem við söfnuðum saman í krukku. Það er sannarlega margt sem er þakkarvert í lífi okkar og stelpnanna.

Núna eru stelpurnar í brennó keppni og síðan býður ráðskonan uppá Lasagne og hvítlauksbrauð í hádegismatinn. Ég á ekki von á öðru en allar taki hraustlega til matar síns því eins og margar segja: Ölver er með besta mat í heimi.

Framundan hjá okkur í dag er gönguferð, Ölvers top model sem margar bíða spenntar eftir og svo fá þær að skella sér í heita pottinn fyrir kvöldmat.

Hlýjar kveðjur

Svava Sigríður Svavarsdóttir, forstöðukona.