Við fengum hið þokkalegasta veður þegar við fórum í gönguferðina. Enda ef maður er vel útbúinn þá eru allir vegir færir og veðrið oft verst í forstofunni. Allar stelpurnar voru jákvæðar fyrir smá göngu og var þetta hin besta útivera. Þegar komið var til baka úr göngunni var kaffitími en í boði var kryddbrauð og kanilsnúður.
Eftir kaffið fóru herbergin síðan að undirbúa TopModel keppnina og eru stelpurnar ansi skapandi og hugmyndaríkar og fengu þeir hæfileikar sannarlega að njóta sín í búningagerð.
Heiti potturinn var á dagskrá og herbergin æfðu leikrit fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmat var kjúklinga tortilla og tóku stelpurnar vel til matar síns enda mjög góður matur. Á kvöldvöku voru sungin ýmis lög og sagðar sögur. Áherslan í kvöld var á að gefast ekki upp og setja sér mörg lítil markmið til að ná stærri markmiðum. Það á við um svo margt í lífinu.
Stelpurnar bjuggust við hefðbundnu kvöldkaffi, ávöxtum, en þess í stað tók á móti þeim huggulega kaffihúsa stemning þar sem boðið var uppá heitt súkkulaði, popp og súkkulaði kex. Á meðan stelpurnar gæddu sér á góðgætinu þá lásu foringjarnir upp þakkarbænir stelpnanna frá því um morguninn og þær kunna sannarlega að sýna þakklæti og uppúr stóð þakklæti fyrir að eiga góða fjölskyldu og þakklæti fyrir að fá að koma í Ölver.
Að kaffihúsakvöldi loknu var komið að hefðbundum kvöldverkum og bænakonur tóku við sínum hópum inná herbergjunum. Þar er gjarnan farið yfir daginn, farið í leiki, sungnir söngvar og lesnar bækur.
Núna er veisludagur runninn upp og mikil spenna fyrir honum enda er hann einskonar uppskeruhátíð flokksins og reynum við að hafa hann eins hátíðlegan og okkur er unnt, ásamt auðvitað ævintýralegri dagskrá.
Í biblíulestri morgundagsins lærðu stelpurnar um sporin í sandinum og áherslu þess að Guð sé með okkur og mætir okkur á ýmsan hátt. Stelpurnar voru duglegar að hlusta og taka þátt í umræðum. Einnig var lesin saga um reiði og fyrirgefningu og mikilvægi þess að útkljá öll mál með samtali og geta þannig minnkað líkur á misskilningi. Stelpurnar fengu með sér smá verkefni inní daginn og það var að hrósa þremur manneskjum. Mig grunar að enn meiri jákvæðni og gleði muni umlykja okkur í dag.
Nú er verið að keppa í brennó og síðan býður ráðskonan uppá pastasalat. Eftir hádegi verða síðan ævintýraleikir, útivera þar sem veðrið virðist ætla að vera okkur hliðhollt, ásamt pottaferð. Síðan er bara að skella sér í sitt fínasta púss fyrir veislukvöldverð og fjölbreytta veisludagskrá að honum loknum en það er rík hefð hér í Ölveri að foringjarnir sjá um leikritin á kvöldin og það er heldur betur hlegið og skemmt sér yfir því.
Kærleikskveðja
Svava Sigríður Svavarsdóttir, forstöðukona.