Mikið var gærdagurinn vel heppnaður, sjálfur veisludagurinn. Stelpurnar fóru í ævintýraleik hér í húsinu en sá leikur tilheyrir sannarlega ævintýraflokki. Eftir kaffi var boðið uppá vinagang en þá buðu stelpurnar sjálfar uppá ýmsar stöðvar í herbergjunum sínum og má þar helst nefna hárgreiðslur, nudd, snyrtingu, spákonu og margt fleira. Þær fóru síðan í heita pottinn eða sturtu og klæddu sig upp í sitt fínasta púss fyrir veislukvöldverð þar sem foringjar þjónuðu til borðs. Í matinn voru hinar vinsælu Ölvers pizzur og rice crispies í eftirmat.

Kvöldvaka á veisludegi er alltaf mjög skemmtileg en þá sjá foringjar um að vera með leikritin og stelpurnar veltast um af hlátri og gleði.

Nú eru stelpurnar búnar að pakka og síðasta biblíulestri lokið þar sem við ræddum  um mikilvægi þess að rækta okkur sjálfar og huga vel að okkur, rétt eins og fræi sem er sáð sem þarf góðan jarðvel, sól og vatn til að vaxa og dafna.

Nú stendur foringjabrennóinn yfir, þar sem sigurlið flokksins keppir við foringjana. Síðan er pylsupartý og lokastund.

Áætlað er að rúta leggi af stað héðan úr Ölveri klukkan 14 og áætluð koma á Holtaveg 28 um klukkan 15. Þær sem verða sóttar þarf að sækja fyrir klukkan 14.

Mig langar að þakka kærlega fyrir mig og okkur starfsfólkið í flokknum. Sjálf fagna ég því að hafa verið svo lánsöm að hafa starfað í Ölveri s.l. 25 ár, með örfáum hléum, og er það mér mjög dýrmætt. Hér ræður kærleikur ríkjum og vonum við að stelpurnar komi heim með gleði í hjarta og ég veit að þær hafa frá mörgu skemmtilegu að segja.

Tvö orð standa uppúr hjá mér eftir þessa viku og eru það þakklæti og hugrekki en það er ómetanlegt að fá að upplifa hugrekki barna við ýmsar aðstæður og það hafa komið mörg gæsahúðar móment hjá forstöðukonu þessa vikuna 🙂

Njótið þess að fá stelpurnar ykkar heim í dag,

Svava Sigríður Svavarsdóttir, forstöðukona.