Dagur 2 í Leikjaflokki var sannarlega fjölbreyttur og skemmtilegur. Rigningin hélt aðeins áfram að stríða okkur en þessar duglegu stelpur létu það þó ekki stoppa sig og höfðust við æ,ðbæði úti og inni við hina ýmsu skemmtilegu dagskrárliði.
Eftir morgunmat var sem endranær komið að biblíustund þar sem sungið var af hjartans lyst og sagan af Kristrúnu og upphafi sumarbúðanna í Ölveri rifjuð upp. Þaðan lá leiðin í brennó en stelpurnar keppa í brennó á hverjum morgni sem endar á því að sigurliðið keppir við foringja á heimfarardegi svo það er jafnan mikið kapp og spenna í brennóinu.
Í hádeginu var boðið uppá bleikan grjónagraut og brauð og tóku allar vel til matar síns. Stelpurnar fengu svo smá frjálsan tíma áður en hin stórskemmtilega tískukeppni, Ölver’s Top Model, fór fram. Herbergin fengu opinn efnivið, glæran poka og kaffifiltera, til að græja fyrir tískupallinn og sýndu þær mikla hugmyndaauðgi. Notuðu blóm, lituð blöð ásamt snyrtivörum að heiman og útkoman fjögur stórskemmtileg „heildarlúkk“ og „outfit“.
Í kaffinu bauð Lilja ráðskona uppá skinkuhorn og „Subway“ smákökur sem stelpurnar, sem og starfsfólk, elskuðu vægast sagt. Eftir kaffi tók við blaut og hressandi gönguferð. Stelpurnar fengu svo að fara í pottinn þegar heim var komið á ný. Fullkomin blanda að bleyta sig smá í rigningunni og dýfa sér svo í heita pottinn. Í frjálsa tímanum fyrir kvöldmat gátu þær svo föndrað armbönd og vinabönd, perlað, litað, spjallað og haft það notalegt með vinkonum inni á herbergjum.
Bleikt þema hélt áfram úr eldhúsinu en í þetta sinn var það bleikt spaghetti og hakk sem rann ljúflega niður. Lindaver og Skógarver sáu um skemmtiatriði á kvöldvöku og stóðu sig með prýði. Það er gaman að sjá hversu innilega stelpurnar fagna hver annarri og peppa.
Þá var komið að náttfatapartý en foringjar og aðstoðarforingjar gjörsamlega trylltu lýðinn og var dansað og sungið af mikilli innlifun. Stelpurnar fengu svo smákökur og ávexti í kvöldkaffinu áður en þær lögðust þreyttar, saddar og sælar á koddann.
Takk fyrir frábæran Ölversdag!
Stella Rún, forstöðukona