Þokan liggur yfir lautinni og hylur fjallið okkar á leyndardómsfullan máta. Þannig hefur það samt ekki verið í dag, því sólin kyssti okkur góðan daginn strax í morgun. Það var aðeins meiri svefn í stelpum í morgun, en þó vöknuðu þær að lokum. Vel var borðað af morgunmat og eftir fánahyllingu skoðuðum við persónur Biblíunnar í Biblíulestrinum. Stelpurnar eru bæði fróðar og fróðleiksfúsar, forvitnin er mikil og það er góður jarðvegur í sumarbúðastarfinu.
Brennókeppnin gengur glymrandi vel og oft er skroppið í íþróttahúsið á milli dagskrárliða. Eftir hádegismat sem samanstóð af karrífiski og hrísgrjónum, var tilkynnt að ekki yrði einungis hárgreiðslukeppni, heldur heildarútlitskeppni þar sem efniviður útlits varð að byggjast á svörtum plastpoka, klósettpappír og bandi. Útfærslurnar voru stórkostlegar og sköpunargleðin mikil! Að auki bættu margar við blómum af landareigninni og ýmsu því sem upp úr töskunum kom. Merkilegt hve mikið er hægt að gera úr litlu – það mætti margur tileinka sér.
Mikið var um dýrðir í kaffinu að vanda og í íþróttakepninni var keppt í stígvélasparki og broskeppni. Það er alltaf gaman að bulla svolítið og þessar stelpur eru snillingar í því! Tvö herbergi æfðu atriði fyrir kvöldvöku og aðrar stúlkur fóru í heita pottinn. Einnig var mikið verið í leikjum, bæði skipulögðum og frjálsum. Nokkrar stúlknanna eru orðnar mjög færar að ganga á stultum og má sjá nokkrar myndir því til sönnunar í myndasafni dagsins ef farið er inn á svæði Ölvers á kfuk.is.
Í kvöldmatinn voru pylsur í pylsubrauði og eftir frjálsan tíma var kvöldvakan. Stúlkurnar háttuðu og burstuðu samviskusamlega tennurnar eftir kvöldbitann og það var þá sem foringjarnir mættu í náttfötunum og sungu náttfatapartý-söng. Mikið er nú gaman að koma skemmtilegu fólki á óvart. Dansað og sundið með popplögunum fram eftir kvöldi auk þess sem óvæntir gestir komu í heimsókn með skemmtiatriði. Nóttin kom allt of snemma, en bænakonur sáu til þess að allar róuðust og sofa nú vært. Það er svo dýrmætt að starfa með þessum hæfileikaríku og úrræðagóðu foringjum, sem hreinlega leggja allt á sig til að gera hvern dag ógleymanlegan.

Góða nótt úr fegurðinni hér í Ölverinu, Ása Björk forstöðukona.